Elísabet S. Ólafsdóttir tilnefndur umdæmisstjóri 2026-2027

miðvikudagur, 27. mars 2024

Guðni

Valnefnd umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi hefur að loknu valferli upplýst að Elísabet Sigurveig Ólafsdóttir úr Rótarýklúbbi Mosfellssveitar verði umdæmisstjóri 2026-2027.

Elísabet er 68 ára löggildur sáttamiðlari og hefur starfað hjá Ríkissáttasemjara sem skrifstofustjóri og sáttasemjari frá 1983 og vann einnig um tíma hjá Ríkissáttasemjara í Kaupmannahöfn. Áður hafði hún starfað hjá Kjararannsóknarnefnd og á Búreiknistofu landbúnaðarins.

Hún gekk til liðs við Rótarýklúbb Mosfellssveitar árið 2000 og var gjaldkeri 2001-2002 og ritari 2002-2003. Hún sagði skilið við klúbbinn árið 2005 en gekk til liðs við klúbbinn árið 2015 og hefur gegnt þar fjölmörgum trúnaðarstörfum, m.a. var hún forseti klúbbsins 2020-2021. Hún hefur sótt umdæmisþing Rótarý í Vestmannaeyjum 2003, í Mosfellssveit 2017 og á Hallormsstað 2021 en einnig sótti Elísabet heimsþing Rótarý í Texas 2022.

Elísabet fæddist á Akureyri en ólst upp á Vopnafirði og fluttist til Reykjavíkur þegar hún var 17 ára gömul. Hún er stoltur Vopnfirðingur sem þreytist ekki á að segja fólki að þar sé veðrið allra best á sumrin.

Elísabet á tvö börn og þrjú barnabörn sem njóta þess að ferðast saman bæði utanlands og innan. Seinni eiginmaður Elísabetar, Hreiðar Örn Gestsson, lést árið 2017 eftir erfið veikindi.

„Fyrir utan ferðalög með fjölskyldu og vinum þá eru helstu áhugamálið útivist og ekki síst veiði. Ég er félagslynd og hef ánægju af þátttöku í félagsstarfi og hef tekið virkan þátt í alls konar félagsstarfi í gegnum árin. Svo er ég bókaormur og les og hlusta mikið á bækur. En umfram allt vanda ég mig við að njóta hvers dags og þakka fyrir það sem ég hef,“ segir Elísabet.

„Það leggst mjög vel í mig að taka við sem umdæmisstjóri, og ég er þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt með tilnefningunni. Ég hlakka til að setjast í umdæmisráðið og læra af reynsluboltunum sem þar sitja og fá tækifæri til fræðast um starf Rótarýhreyfingarinnar bæði hérlendis og í öðrum löndum,“ segir Elísabet S. Ólafsdóttir, tilnefndur umdæmisstjóri 2026-2027. 

Val á umdæmisstjóra

Í reglum Rótarý (Manual of Procedure) eru fyrirmæli um val á umdæmisstjóraefni og hefur Rótarýumdæmið á Íslandi fyrir löngu ákveðið að nota þá aðferð að hafa valnefnd sem samanstendur af fimm fyrrverandi umdæmisstjórum. Kallað er eftir tilnefningum frá klúbbunum og getur hver klúbbur tilnefnt einn félaga úr sínum röðum sem hefur fengið samþykki á almennum klúbbfundi og skal valið staðfest af ritara klúbbsins.

Valnefndin skal velja hæfasta rótarýfélagann hverju sinni og takmarkast valið ekki við þau nöfn sem tilnefnd hafa verið af klúbbunum.

Innskráðir rótarýfélagar geta séð reglurnar um val á umdæmisstjóraefni hér.

Elísabet S. Ólafsdóttir